Uppskriftir
Uppskrift 1

Rósapipargrafinn hreindýravöðvi með bláberjasósu

 • 2 hreindýralærtungur, u.þ.b. 400 g, eða annað gott hreindýrakjöt
 • 2 bollar gróft salt
 • 4 msk. steyttur rósapipar

Hyljið kjötið með salti og geymið við stofuhita í 4 klst. Skolið þá saltið af með vatni og veltið kjötinu upp úr rósapiparnum. Vefjið plastfilmu utan um kjötið og geymið í kæli yfir nótt.

Bláberjasósa:

 • 1 dl bláberjasulta
 • 1-2 msk. balsamedik
 • 1/2 tsk. worcestershire-sósa
 • 1 dl olía
 • salt
 • nýmalaður svartur pipar

Setjið bláberjasultu, balsamedik og worcestershire-sósu í skál og blandið vel saman með þeytara. Hellið olíunni í mjórri bunu saman við og þeytið á meðan. Kryddið með salti og pipar eftir smekk. Skerið kjötið í fallegar sneiðar og berið fram með sósunni og blönduðu salati.

Uppskrift 2

Heilsteiktur hreindýravöðvi með grænpiparsósu

 • 3 msk. olía
 • 800 g - 1 kg hreindýravöðvi, t.d. klumpur eða annar góður lærvöðvi
 • salt
 • nýmalaður svartur pipar

Skerið sinar og fitu af kjötinu. Kryddið það með salti og pipar og steikið í olíu á pönnu þar til kjötið er orðið fallega brúnt. Setjið kjötið á grind og steikið í ofni við 180°C í 7 mín. Takið þá kjötið úr ofninum og látið bíða í 7 mín. Endurtakið þetta þannig að kjötið fari í ofninn þrisvar sinnum alls. Skerið kjötið í fallegar sneiðar og berið fram með grænpiparsósunni (sjá uppskrift), kryddhjúpuðum kartöflum og blönduðu grænmeti.

Grænpiparsósa:

 • 2 msk. olía
 • 1 laukur, fínt saxaður
 • 1 msk. grænn pipar
 • 1 tsk. dijon-sinnep
 • 1/2 dl koníak
 • 3 dl gott hreindýrasoð eða vatn og villibráðarkraftur
 • 2 dl rjómi
 • sósujafnari

Hitið olíu í potti og látið laukinn krauma með piparnum í u.þ.b. 1 mín. Bætið þá dijon-sinnepi og koníaki á pönnuna og sjóðið niður í síróp. Bætið því næst soðinu og rjómanum í pottinn og þykkið með sósujafnara.

Uppskrift 3

Léttsteiktur hreindýravöðvi með púrtvínssósu

 • 1 kg hreindýravöðvi, t.d. flatsteik
 • 3 msk. olía
 • salt
 • nýmalaður svartur pipar

Skerið sinarnar af kjötinu og geymið þær. Eldið kjötið á sama máta og hreindýraklumpinn hér að framan nema að kjötið er sett í ofninn í 5 mín. í stað 7 mín. Skerið kjötið í fallegar sneiðar og berið fram með púrtvínssósunni (sjá uppskrift), pönnusteiktum parísarkartöflum og blönduðu grænmeti.

Púrtvínssósa:

 • 3 msk. olía
 • sinarnar af kjötinu
 • 1 laukur, smátt saxaður
 • 1 lárviðarlauf
 • 1/2 tsk. tímían
 • 1 tsk. tómatmauk (purée)
 • 1 dl dökkt púrtvín eða rauðvín
 • 1 msk. balsamedik
 • 1 tsk. villibráðarkraftur
 • 4 dl vatn
 • sósujafnari
 • 30 g kalt smjör
 • salt
 • nýmalaður svartur pipar

Látið sinarnar af kjötinu krauma í olíu í potti þar til þær verða fallega brúnar. Setjið þá laukinn saman við og látið krauma áfram í 30 sek. Bætið lárviðarlaufi, tímíani, tómatmauki, púrtvíni og balsamediki út í pottinn og sjóðið niðurí síróp. Hellið vatninum saman við og sjóðið við vægan hita í 1 klst. (Eftir því sem vatnið gufar upp er meira vatni bætt í pottinn.) Sigtið þá soðið og þykkið með sósujafnara. Takið pottinn af hellunni og setjið smjörið út í. Hrærið í með þeytara þar til smjörið hefur bráðnað. Bragðbætið með salti, pipar og villibráðarkrafti.

Uppskrift 4

Beikonvafðar hreindýralundir með villibráðarsósu

Hreindýralund er skorin í medalíur og þær vafðar með beikonsneið sem er fest með tannstöngli. Medalíurnar eru síðan brúnaðar á pönnu og settar í 180°C heitan ofn í 6 til 8 mín. Borið fram með bakaðri kartöflu og villibráðarsósu.

Villibráðarsósa:

 • 5 dl vatn

 • 2 msk. Villibrádarkraftur (oskar)

 • 1 msk. Gráðostur

 • 2 msk. Rifsberjahlaup

 • 1 tsk. Timjan

 • Sósujafnari

 • Salt og pipar

 • 2 dl rjómi


Vatn, kraftur, gráðostur, rifsberjahlaup og timjan sett saman í pott og suða látin koma upp, þykkt með maísena, kryddað með salti og pipar, rjómanum bætt í.